laugardagur, 24. október 2009

partýpar.

Við íbúarnir á Warren road 1a erum jafn ólík og við erum mörg. Fremst á meðal jafningja hlýtur þó að vera par sem kennt er við partý. Partýparið er þó ekki bara partýpar, það er líka takeawaypar, kisupar, WorldofWarcraftpar og sjónvarpspar. Fjölhæf eru þau.
Partýparið hefur ekki gaman af ljóðalestri eða löngum göngutúrum á ströndinni eins og öll önnur venjuleg pör sem ég þekki, samanber ofurparinu Ásgrími og Halldísi. Ónei, þvert á móti. Partýparið eyðir öllum frítíma sínum fyrir framan tölvu eða sjónvarpsskjá.

PartýKK, á að giska 22 ára karlmaður í yfirvigt, er (vægast sagt) áhugasamur world of warcraft spilari. Hann hefur reyndar áhuga á öllum tölvuleikjum sem framleiddir hafa verið. Síðan ég flutti inn hef ég, grínlaust, einu sinni séð hann úti við. Og það var ekki fögur sjón. Gagnsær og bólóttur sligaðist hann upp götuna á móti mér, aðframkominn. Enda sennilega ekki fengið svona mikla hreyfingu síðan árið 1992.
PartýKK vaknar uppúr hádegi kveikir á tölvunni og spilar WoW fram á rauða nótt og jafnvel alla nóttina ef sá gállinn er á honum, sem er frekar oft. Sem betur fer hefur hann eignast vinnu núna og er það jákvætt fyrir alla heimilismeðlimi. Loksins er hægt að borða við eldhúsborðið. PartýKK er einnig algjör sjarmör og finnst ofboðslega gaman að rasskella partýKVK og kalla hana beibí.

PartýKVK, 22 ára þýsk horengla, er metnaðarfullur starfskraftur samloku risans Subway. Hún vinnur mikið og í hvert skipti sem hún kemur heim úr vinnunni setst hún fyrir framan sjónvarpið og horfir á það þar til hún fer að sofa. Hún getur þulið upp fyrir þig sjónvarpsdagskrá flestra stöðvanna. Trúið mér, ég prófaði það um daginn. Eina sem ég hef séð hana geta fyrir utan þetta er að elda mat handa partýKK, sem hlýtur reyndar að teljast sem metnaðarfullt verkefni því mannsvínið étur ótæpilega.

Saman á partýparið kisa, Mango. Mynd af honum má sjá í færslunni fyrir neðan. Partýparið lítur á Mango sem son sinn og hlúir að honum eftir því. Þau sýna honum jafnmikla ást og athygli og mama goose sýnir litlu mús. Í hvert skipti sem Mango stekur upp á sjónvarpið, sem virðist yfirleitt gerast þegar ég er að reyna að horfa á það. Þá kalla þau hvort á annað: Ohh baby look what he is doing, look!!! (athugið ótrúlega enskukunnáttu mína, er farin að geta myndað setningar.) Og verða mjög æst, sem mér þykir óskiljanlegt því kisi er óþolandi. En hverjum þykir sinn fugl fagur býst ég við.

Annars er gott að frétta.

fimmtudagur, 22. október 2009

mynder.

(L)

Warren Road.


Mango - kötturinn sem ég elska að hata.

Maður í jóga.

sunnudagur, 18. október 2009

fry up.

Kæru vinir, rúmlega tvær vikur síðans síðast og nánast mánuður frá brottför. Tíminn flýgur og dvöl mín í Englandi er með eindæmum ágæt. Frá því síðast hef ég eignast nýtt heimili. Nýtt mjög skítugt heimili sem ég stefni á að þrífa all svakalega á morg. Svona afþví ég er í fríi í vinnunni.

Sambúðin með 6 manneskjum gengur vel og er furðu hljóðlát, það eru mestu lætin í mér. Ásamt mér býr hér pólskur maður sem hreyfir sig eins og skugginn, hann heitir Georgio. Hann vinnur á Starbucks. Andrúmsloftið er því rafmagnað þegar við erum bæði heima við. Við skjótum eitruðum augnaráðum á hvort annað hvenær sem tækifæri gefst og hreytum ónotum í hvort annað í tíma og ótíma. Hér er býr einnig stórvinur minn surferdave sem er ágætis piltur, ég titla hann og Adam einu raunverulegu vini mína hérna í GB. Surferdave er búin að vera einstaklega duglegur við að elda fyrir mig og þá aðallega breskan mat. Seinasta sunnudag eldaði hann roast dinner sem er víst svakalega bresk máltíð. Trúði því varla þar sem það smakkaðist mjög vel. Í gær fékk ég svo fry up sem er víst ennþá breskara, og því trúi ég vel.
Mynd af fry up. Reyndar ekki þeirri sem ég snæddi, hún leit enn verr út.

Annars er ég búin að vera að vinna mjög mikið og er að eigin sögn frábær starfsmaður. Í dag fékk ég meira að segja að hella uppá kaffi, með umsjón yfirmanns þó. Þau taka uppáhellingar mjög alvarlega á Costa og ætti ég með réttu að vera búin að fylla út barista workbook-ina mína áður en ég fæ að snerta tryllitækið. Svona er maður heppin. Með mér vinnur svo allskonar fólk eins og t.d. áðurnefndur Adam. Er einnig að vinna með ágætisstelpu frá Ungverjalandi sem er vinkona mín. Nema þegar hún segir að ég líti út eins og 14 ára barn. Sem hún gerir frekar oft og þá verð ég sko pirrípirr. Í dag skar ég mig smá (lifi enn á brúninni þó ég sé í GB) og þurfti aðstoð við að koma fyrir plástri þá tók hún andköf og sagði mér að ég væri sko með rosalega chubby hendur. Frábært. Ég vona innilega mín vegna að það sé rosalega heitt í Ungverjalandi að líta út eins og fjórtán ára barn með búttaðar hendur. Leyfi mér samt að efast stórlega um það...

sunnudagur, 4. október 2009

vinur minn.

Frá því síðast hef ég eignast eina vinnu og einn vin. Vinnan er á kaffihúsi og vinur minn vinnur með mér á kaffihúsinu. Hann er svona starfsmaður mánaðarsins týpa, ef þið skiljið hvað ég er að fara. Vininn ætla ég að kalla A og er hann 20 ára rauðhærður karlmaður. A er samt ekki mjög karlmannlegur og á líka kærasta. Þar fóru allir draumar um kelerí inná lager, bömmer maður. Þegar vinur minn afgreiðir þá reynir hann að hreyfa sig eins og vindurinn og hlær smeðjulega að öllu sem viðskiptavinurinn segir, undir venjulegum kringumstæðum færi hann sennilega óstjórnlega í taugarnar á mér. En þar sem ég er ekki í mínu venjulega umhverfi finnst mér hann bara frekar krúttlegur.

A fékk sem sagt það mikilvæga hlutverk að sýna mér hvernig allt virkar. Á milli þess sem hann sýndi mér hvernig maður setur í uppþvottavélina og hringir á hjálp ef manni skrikar fótur á fatlaðaklósettinu þá læddi hann inn nokkrum spurningum um Ísland. Fyrst var hann mjög feiminn og hallaðir sér örlítið upp að mér þegar hann hvíslaði undrandi: Gyða, er það í alvöru satt sem maður heyrir. Eru í alvöru ekki neinar lestar á Íslandi?!? Þegar ég jánkaði því og sagði að það væri svo sannarlega dagsatt þá nánast trylltist hann úr gleði. Sem ég skil ekki alveg. Ég tryllist allavega ekki úr gleði í hvert skipti sem ég sé lest. Sem betur fer.

Dagurinn leið og ég og nýji vinurinn fórum saman í kaffi. Í kaffinu hélt spurningalistinn áfram og reyndi ég eftir bestu getu að fræða A um land og þjóð. Loksins beindi hann spurningunum þó að mér og fór að spyrja um mig og mína hagi. Þar sem það veitir mér einstaka ánægju að tala um sjálfan mig tók ég þessu fagnandi. Það stóð þó ekki lengi. Fyrsta spurning A var hver væru mín helstu áhugamál og hvað ég hafði hugsað mér að læra. Sagði ég honum eins og satt er að mig langaði að læra innanhússhönnun og aftur trylltist A. Honum var mikið niðri fyrir þegar hann útskýrði fyrir mér að hann og mamma hans sko eeeeeeeelskuðu svoleiðis og þau hefðu eitt ómældum tíma í að endurhanna íbúðina sem þau búa nú í. Svo sagði hann mér í löngu máli frá húsnæðinu, litunum á veggjunum, teppinu og lýsti húsgögnunum gaumgæfilega og ég reyndi eftir bestu getu að sjá þetta allt saman fyrir mér. Niðurstaðan var frekar undarleg. Svo sagði hann mér líka frá því að hann væri að undirbúa stórfeldar breytingar á svefnherbergi sínu, þar yrði sko ekta japanskur fílingur. Bambus og allt til alls. Get ekki beðið eftir að heyra meira um það.

Á morgun flyt ég inn með sex öðrum manneskjum. Það verður án efa áhugavert.