laugardagur, 23. janúar 2010

oj.

Kæru vinir,
á morgun er seinasta vaktin mín á kaffihúsinu. Vaktin markar endann á farsælum starfsferli mínum sem Loz the barista og bindur einnig hnút á endann á spottanum sem dvöl mín í Bournemouth er. Sem sagt, stórkostlegt vakt. Báðir þessir endar kalla á upplyftingu, fögnuð og gleði sem er einmitt ástæða þess að á morgun mun ég með vinum mínum halda á international night (svo mikilvægt að vera soldið international, he he) á V club. Eldgömul kirkja í hjarta Bournemouth sem fengið hefur uppreisn æru og verið gerð að diskó klúbb. Hér fer ég bara á klúbbinn, aldrei bar. En stundum pöbbinn.

Þrátt fyrir að seinasti starfsdagur minn sé á morgun þá er strax búið að ráða manneskju í minn stað, og þau voru ekki lengi að því. Costa virðist bera litla sem enga virðingu fyrir tilfinningum starfskrafta sinna. Tók ég þó meðvitaða ákvörðun um að vera stærri manneskjan og rísa fyrir ofan þessa hegðun og hef af þeim sökum tekið virkan þátt í starfsþjálfun eftirmanns míns. Til að gera langa sögu stutta þá er maðurinn stórfurðulegur og minnir einna helst á persónu Will Ferrel úr stórvirkinu Elf. Bæði í útliti og háttum. Vinsamlegast athugið að ég er á engan hátt lituð af aðstæðum.

Annars get ég með engu móti skilið þá venju fólks að snýta sér hressilega á almannafæri og þá sérstaklega ekki þegar þú ert vel kvefaður. Þetta er mjög ógeðslegt og það er í alvöru ekkert mál að afsaka sig og skreppa afsíðis (hef sjálf gert nákvæma athugun á þessu og það tók ekki nema 35 sek, true story). Snýtararnir falla sjálfkrafa í flokk með partýpari og decaf skinny vanilla latte týpum.

Myndin er sviðsett.

þriðjudagur, 5. janúar 2010

Spenntíspennt.

Nákvæmlega núna er ég við það að pissa í buxurnar. Og ástæðan er ekki ofreynsla á þvagblöðru vegna tedrykkju. Heldur fylgir gífurlegur spenningur tilvonandi heimsóknar stórvinkonu minnar Ásdísar Ólafsdóttur, spenningur sem virðist hafa bein áhrif á þvagblöðruna.

Mikið er ég spenntíspennt. Veðurguðirnir eru líka mjög spenntir yfir komu Dízu og hafa ákveðið að gera sitt allra besta til að bjóða hana velkomna og splæsa því í snjókomu á morgun. Þeir virðast hinsvegar hafa gleymt að taka það með í reikningin að snjókomu í þessu landi fylgja gífurlegar seinkanir á öllum samkomum. Sem er ekki gott, sérstaklega ekki þar sem við munum nýta okkur samgöngur á morgun. Mér hefur ekki enn tekist að læra tilflutning.
Skrýtin tilviljun að nákvæmlega sama gerðist þegar ma,pa&lil sis komu. 5 klukkutíma seinkun er ekki eitthvað sem ég er áfjáð í. Ég ætti kannski að fara að taka þessu eitthvað persónulega?

laugardagur, 2. janúar 2010

Stál og hnífur.

Kæru vinir,
eins og hefur sjálfsagt ekki farið framhjá neinu ykkar eru jólin nýafstaðin og svo er líka komið nýtt ár. Ótrúlegt. Sjálf eyddi ég hátíð ljóss og friðar í GB og var það áhugarverð reynsla. Segjast verður eins og er að bretar komast ekki með tærnar þar sem við íslendingar höfum hælanna í að halda jól. Og eins og þið getið rétt ímyndað ykkur var ég ekkert feimin við að tilkynna þeim það. Er soldið að vinna með þessa óþolandi týpu í GB.

Annars gæti svo sem vel verið að karma hafi bitið í rassinn á mér í dag þar sem mér tókst á einhvern ótrúlegan hátt að detta upp stiga í vinnuni með lúkurnar fullar af diskum og bollum. Skar mig að sjálfsögðu og svo var þetta mér til ennþá meiri ánægju fyrir framan svona sirka 15 manns. Vinsamlegast athugið að ekki ein hræða stóð upp til að veita mér fyrstu hjálp þar sem ég lá nánast örkrumla á plastparketinu. Ein kona stóð að vísu upp og gekk í áttina að mér og hélt ég í nokkur dásamleg augnablik að hún ætlaði að aðstoða mig en þá var hún eingöngu að þurrka mjólk af kápunni sinni. Flottust. Núna er ég samt með risa umbúðir á hendinni, segji öllum sem spyrja mig að pólska stelpan sem ég vinn með hafi stungið mig. Það rengir enginn frásögn mína.

Djók, hún er besta skinn. Og myndi aldrei stinga mig.