föstudagur, 7. janúar 2011

Kæru vinir,
þegar ég byrjaði að blogga tók ég meðvitaða ákvörðun um að biðjast aldrei afsökunnar á því hversu langar færslurnar yrðu, hversu langt liði á milli þeirra eða hversu ótrúlega samhengislausar og kjánalegar þær yrðu. Ég hef staðið við það. Hins vegar verð ég augljóslega að endurskoða blogglíferni mitt. Ég hef staðið mig með eindæmum illa. Jafnvel valdið sjálfri mér vonbrigðum. Samt er ég með þessar ótrúlegu bloggfyrirmyndir sem glamúrgellan og Tobba Marinós eru. Tobba er sko að drita inn nánast einni færslu á dag! Glamúrgellan er ekki alveg jafn dugleg enda búin að vera að glíma við prófstress mikið og núna sár á nefi, hún stendur samt alltaf fyrir sínu.

Ég sé að síðan í seinustu færslu hefur ýmislegt á daga mína drifið, ég er flutt inní nýja íbúð. Með téðri Ásdísi. Þar drekkum við mikið te og mikið rauðvín. Hinsvegar hef ég ekki enn lagst í framkvæmdir á gardínum og ekki bjó ég til jólatré. Kannski fyrir næstu jól. Hinsvegar fékk ég vinnu og er líka hætt í henni. Ekki meira um það að segja.

Á mánudaginn byrjar Háskólinn, á maður ekki annars að skrifa hann með hástaf? Ég er titrandi taugahrúga yfir þessu öllu. Háskólanum og hástöfum.