sunnudagur, 4. október 2009

vinur minn.

Frá því síðast hef ég eignast eina vinnu og einn vin. Vinnan er á kaffihúsi og vinur minn vinnur með mér á kaffihúsinu. Hann er svona starfsmaður mánaðarsins týpa, ef þið skiljið hvað ég er að fara. Vininn ætla ég að kalla A og er hann 20 ára rauðhærður karlmaður. A er samt ekki mjög karlmannlegur og á líka kærasta. Þar fóru allir draumar um kelerí inná lager, bömmer maður. Þegar vinur minn afgreiðir þá reynir hann að hreyfa sig eins og vindurinn og hlær smeðjulega að öllu sem viðskiptavinurinn segir, undir venjulegum kringumstæðum færi hann sennilega óstjórnlega í taugarnar á mér. En þar sem ég er ekki í mínu venjulega umhverfi finnst mér hann bara frekar krúttlegur.

A fékk sem sagt það mikilvæga hlutverk að sýna mér hvernig allt virkar. Á milli þess sem hann sýndi mér hvernig maður setur í uppþvottavélina og hringir á hjálp ef manni skrikar fótur á fatlaðaklósettinu þá læddi hann inn nokkrum spurningum um Ísland. Fyrst var hann mjög feiminn og hallaðir sér örlítið upp að mér þegar hann hvíslaði undrandi: Gyða, er það í alvöru satt sem maður heyrir. Eru í alvöru ekki neinar lestar á Íslandi?!? Þegar ég jánkaði því og sagði að það væri svo sannarlega dagsatt þá nánast trylltist hann úr gleði. Sem ég skil ekki alveg. Ég tryllist allavega ekki úr gleði í hvert skipti sem ég sé lest. Sem betur fer.

Dagurinn leið og ég og nýji vinurinn fórum saman í kaffi. Í kaffinu hélt spurningalistinn áfram og reyndi ég eftir bestu getu að fræða A um land og þjóð. Loksins beindi hann spurningunum þó að mér og fór að spyrja um mig og mína hagi. Þar sem það veitir mér einstaka ánægju að tala um sjálfan mig tók ég þessu fagnandi. Það stóð þó ekki lengi. Fyrsta spurning A var hver væru mín helstu áhugamál og hvað ég hafði hugsað mér að læra. Sagði ég honum eins og satt er að mig langaði að læra innanhússhönnun og aftur trylltist A. Honum var mikið niðri fyrir þegar hann útskýrði fyrir mér að hann og mamma hans sko eeeeeeeelskuðu svoleiðis og þau hefðu eitt ómældum tíma í að endurhanna íbúðina sem þau búa nú í. Svo sagði hann mér í löngu máli frá húsnæðinu, litunum á veggjunum, teppinu og lýsti húsgögnunum gaumgæfilega og ég reyndi eftir bestu getu að sjá þetta allt saman fyrir mér. Niðurstaðan var frekar undarleg. Svo sagði hann mér líka frá því að hann væri að undirbúa stórfeldar breytingar á svefnherbergi sínu, þar yrði sko ekta japanskur fílingur. Bambus og allt til alls. Get ekki beðið eftir að heyra meira um það.

Á morgun flyt ég inn með sex öðrum manneskjum. Það verður án efa áhugavert.

2 ummæli:

alackofcolour sagði...

WAAH EN SPENNNO!
mig langar ad hitta your brand new friend!!
hlakka til ad heyra um your new rooommates!
goda skemmtun :D og GOODLUCK
XERB

Magnús Örn Sigurðsson sagði...

Nú verðuru að passa að kenna Adam ekki íslensku...