mánudagur, 23. nóvember 2009

decaf skinny latte.

Ferðin til Southampton gekk stóráfallalaust fyrir sig og fann ég job centerið þar sem viðtalið fór fram án mikilla erfiðleika þökk sé frumstæðu ungversku korti og minni eigin sjálfsbjargar viðleitni (maður má ekki gefa þessum ungverjum allt kreditið). Er ég kom í viðtalið varð þó uppi fótur og fit í þessari annars viðurlegu stofnun. Herramaðurinn sem stjórnaði viðtalinu sagði mér með öndina í hálsinum frá því að þau hefðu aldrei áður séð íslenskt vegabréf. Þessari staðhæfingu fylgdi hann svo eftir með nokkrum spurningum um Ísland sem ég svaraði að sjálfsögðu samviskusamlega, og með mikilli ánægju.

Eftir þessa stórbrotnu reynslu rölti ég um Southampton í nokkra klukkutíma og fór í ikea. Sem var unaðslegt. Eftir tvo stórkostlega klukkutíma þar inni neyddist ég hinsvegar til að taka rútuna heim. Það var einmitt á því augnabliki sem ég áttaði mig á því að stórinnkaup í ikea eru ekki góð hugmynd þegar ferðast er með rútu og því síður þegar þú neyðist til að labba ágætis vegalengd úr rútunni á warren road. Ég kaus að bera fjárfestingar mínar á bakinu og er enn að jafna mig. Það að vera lasílas bætti heldur ekki úr skák.

Annars get ég ekki trúað að fólk sem fær sér decaf skinny vanilla latte sé mjög skemmtilegt, það lítur allavega ekki út fyrir það. Sorry með mig.

mánudagur, 9. nóvember 2009

fréttir af LOZ.

vinir og vandamenn,
allskonar hluti hefur á daga mína drifið síðastliðnar vikur. Ekkert rosalega merkilegt þó, sem er synd og skömm. Get þó glatt ykkur með þeim fréttum að ég hef loksins fengið útborgað og hef því lagt pot noodles á hilluna. Í bili að minsta kosti. Til að halda uppá téða útborgun ákvað ég að verðlauna sjálfan mig fyrir vel unnin störf, mjög mikilvægt las það í einhverri sjálfshjálparbók, og fara út að borða. Ég fann þó engan til að fara út að borða með (vinir eru af skornum skammti í GB) og ákvað þessvegna bara að fara ein. I am a proud woman and I don´t need anybody og allt það. Gékk ég því inná fínan indverskan restaurant í nágrenninu og bað um borð fyrir einn. Þegar ég gekk í gegnum borðsalinn áttaði ég mig hinsvegar á því að ég var í orðsins fyllstu merkingu ein úti að borða. Veitingastaðurinn var tómur fyrir utan mig. Og 5 indverska þjóna sem allir horfðu á mig borða af miklum áhuga. Það var í senn óþægilegt og ánægjulegt að fá alla þessa athygli frá 5 karlmönnum.

Annars á ég núna um það bil 7 vini. Og er ég frekar ánægð með þá tölu, þó að miðað við höfðatölu sé það auðvitað skelfileg frammistaða. Ég hugsa að ástæðan fyrir að ég á ekki helmingi fleiri vini sé sú að ég er orðin svo skelfilega þjóðernissinnuð að það nær engri átt, það er örugglega skelfilega leiðilegt að hlusta á mig. Athugið samt að sú vitneskja stoppar mig samt alls ekki í því að lofsyngja Ísland, þetta er eins og að vera fíkill. Fólk þarf ekki nema að nefna eitthvað tengt ís og þá er ég komin á fulla ferð. Ég stóð sjálfan mig að því um daginn að lýsa hálendi Íslands með tárin í augunum, og ég hef ekki einu sinni komið á hálendið. En ég hef hinsvegar séð stórkostlegar myndir.

Annars gengur vinnan bara ansi vel og er ég búin að fá barmmerki og nafnbótina barista. Sem er auðvitað stórt persónulegt afrek og eru mamma og pabbi ótrúlega stolt af mér. Samkvæmt barmmerkinu heiti ég þó LOZ en ekki LÓA. Hef ekki hugmynd um hvernig costa tókst að klúðra þeirri einföldu stafsetningu. Það eru bara einfaldlega ekki allir jafn gáfaðir og við Íslendingar.

Á þriðjudaginn held ég svo til Southampton til að fá national insurance number sem ég er búin að bíða í rúmlega mánuð eftir að fá. Það er ótrúlega tímafrekt að vera útlendingur í útlöndum. Eina jákvæða við þessa glæfraför á þriðjudaginn er það að IKEA er einmitt staðsett í Southampton og ég er ótrúlega spennt. Þó að auðvitað sé IKEA á Íslandi best í heimi, það er örugglega ekki sama lúxus bragðið af kjötbollunum.

LOZ - the barista