Kæru vinir,
þið kunnið að undrast endurfæðingu þessa vefseturs en í einangrun getur ýmislegt gerst. Nú er staðan einmitt sú að ég sit hér í Kaupmannahöfn í einangrun sökum veiru sem við elskum öll að hata. Það hefur margt og mikið gerst síðan ég setti síðast niður penna hér, þann 25. mars 2011. Ég ætla nú ekki að fara að reifa allt sem á daga mína hefur drifið enda er líf mitt með eindæmum viðburðaríkt og fjölbreytt. Að minnsta kosti það sem af er. Þess má þó til gamans geta að titill þessara færslu er vísun í ferðalög mín síðastliðið árið til og frá Íslandi til þess að forðast fyrrnefnda veiru. Fyrra stoppið varði í fimm mánuði og það seinna í rúma fjóra. Í bæði skiptin höfum við dvalið hjá óeigingjörnum og ómetanlegum vinum sem best er lýst sem sönnum mannvinum. Við höfum lofað þeim að okkar næstu heimsóknir verði taldar í klukkustundum en ekki mánuðum. Ég veit ekki alveg hvort þau trúa okkur.
Nú sitjum við hér, ég og lífsförunautur minn til fimm ára, við eldhúsborðið í sitthvorri tölvunni á öðrum degi einangrunar. Við ferðuðumst frá Íslandi síðastliðin laugardag eftir það sem átti að verða stutt og laggott jólafrí. Þið sjáið nú hvernig það fór. En hingað erum við loksins komin og auðvitað alsæl. Einangrunin hefur ekki verið sérlega krefjandi hingað til. Það varð þó ákveðið krítískt ástand þegar ég uppgötvaði mér til mikillar skelfingar í gærmorgun að kaffið sem stórvinkona okkar hafði keypt fyrir mig reyndist vera í formi bauna en ekki malað. Eftir örvæntingarfulla leit í öllum eldhússkápum fann ég þó eldra kaffi sem blessunarlega hafði verið pakkað í loftþéttar umbúðir. Kvíðakasti var þar með afstýrt. Stuttu síðar áttaði ég mig á því að klósettpappírinn var búinn. Örvæntingarfull leit um alla skápa íbúðarinnar skilaði því miður engu og við neyddumst til þess að horfast blákalt í augu við aðstæður. Við vorum að lifa martröðina sem við héldum öll að yrði okkar í upphafi veiru og engum um það að kenna nema okkur sjálfum. Við sofnuðum á verðinum. Þetta hefði getað verið upphafið að endinum en blessunarlega bý ég með manni sem krefst þess að á heimilinu sé alltaf til eldhúsrúlla. Það þýðir ekkert að segja honum að við eigum bara eina jörð, ég hef reynt. Þessari áráttu hans hef ég oft bölvað en ég verð að viðurkenna að við þessa uppgötvun í gær þá féll ég á kné og kyssti fætur hans. Ég fór svo auðvitað lóðbeint í tölvuna og pantaði bæði klósettpappír og kaffi. Fyrr í dag kom svo sendill. Ég hafði samviskusamlega skrifað á pöntunina að hann ætti að banka og skilja vörurnar eftir þar sem við værum í einangrun. Vistirnar yrðu ferjaðar inn þegar öruggri fjarlægð hefði verið náð. Herramaðurinn hætti ekki að banka og eftir að hafa reynt að garga á hann í gegnum hurðina í einhvern tíma (þetta er sko rosalega þykk eldvarnahurð) gafst ég upp, setti á mig grímu, opnaði hurðina og hélt henni opinni með fætinum á meðan ég hallaði mér vel aftur til þess að tryggja sem mesta fjarlægð. Þó verður að viðurkennast að þessar tilfæringar reyndu töluvert á bak- og kviðvöðva en við erum auðvitað öll almannavarnir. Hann tjáði mér þá að það vantaði eitthvað í pöntunina og ég þyrfti að hafa samband við hans yfirboðara. Hann hvarf á braut og ég bar inn pokana. Hvað vantaði kunnið þið að velta fyrir ykkur? Nú auðvitað klósettpappírinn og kaffið.
Það eru ekki öll ævintýri eins.