mánudagur, 29. mars 2021

Lóan sem fór, kom, fór aftur, kom aftur og er farin aftur.

Kæru vinir,

þið kunnið að undrast endurfæðingu þessa vefseturs en í einangrun getur ýmislegt gerst. Nú er staðan einmitt sú að ég sit hér í Kaupmannahöfn í einangrun sökum veiru sem við elskum öll að hata. Það hefur margt og mikið gerst síðan ég setti síðast niður penna hér, þann 25. mars 2011. Ég ætla nú ekki að fara að reifa allt sem á daga mína hefur drifið enda er líf mitt með eindæmum viðburðaríkt og fjölbreytt. Að minnsta kosti það sem af er. Þess má þó til gamans geta að titill þessara færslu er vísun í ferðalög mín síðastliðið árið til og frá Íslandi til þess að forðast fyrrnefnda veiru. Fyrra stoppið varði í fimm mánuði og það seinna í rúma fjóra. Í bæði skiptin höfum við dvalið hjá óeigingjörnum og ómetanlegum vinum sem best er lýst sem sönnum mannvinum. Við höfum lofað þeim að okkar næstu heimsóknir verði taldar í klukkustundum en ekki mánuðum. Ég veit ekki alveg hvort þau trúa okkur.

Nú sitjum við hér, ég og lífsförunautur minn til fimm ára, við eldhúsborðið í sitthvorri tölvunni á öðrum degi einangrunar. Við ferðuðumst frá Íslandi síðastliðin laugardag eftir það sem átti að verða stutt og laggott jólafrí. Þið sjáið nú hvernig það fór. En hingað erum við loksins komin og auðvitað alsæl. Einangrunin hefur ekki verið sérlega krefjandi hingað til. Það varð þó ákveðið krítískt ástand þegar ég uppgötvaði mér til mikillar skelfingar í gærmorgun að kaffið sem stórvinkona okkar hafði keypt fyrir mig reyndist vera í formi bauna en ekki malað. Eftir örvæntingarfulla leit í öllum eldhússkápum fann ég þó eldra kaffi sem blessunarlega hafði verið pakkað í loftþéttar umbúðir. Kvíðakasti var þar með afstýrt. Stuttu síðar áttaði ég mig á því að klósettpappírinn var búinn. Örvæntingarfull leit um alla skápa íbúðarinnar skilaði því miður engu og við neyddumst til þess að horfast blákalt í augu við aðstæður. Við vorum að lifa martröðina sem við héldum öll að yrði okkar í upphafi veiru og engum um það að kenna nema okkur sjálfum. Við sofnuðum á verðinum. Þetta hefði getað verið upphafið að endinum en blessunarlega bý ég með manni sem krefst þess að á heimilinu sé alltaf til eldhúsrúlla. Það þýðir ekkert að segja honum að við eigum bara eina jörð, ég hef reynt. Þessari áráttu hans hef ég oft bölvað en ég verð að viðurkenna að við þessa uppgötvun í gær þá féll ég á kné og kyssti fætur hans. Ég fór svo auðvitað lóðbeint í tölvuna og pantaði bæði klósettpappír og kaffi. Fyrr í dag kom svo sendill. Ég hafði samviskusamlega skrifað á pöntunina að hann ætti að banka og skilja vörurnar eftir þar sem við værum í einangrun. Vistirnar yrðu ferjaðar inn þegar öruggri fjarlægð hefði verið náð. Herramaðurinn hætti ekki að banka og eftir að hafa reynt að garga á hann í gegnum hurðina í einhvern tíma (þetta er sko rosalega þykk eldvarnahurð) gafst ég upp, setti á mig grímu, opnaði hurðina og hélt henni opinni með fætinum á meðan ég hallaði mér vel aftur til þess að tryggja sem mesta fjarlægð. Þó verður að viðurkennast að þessar tilfæringar reyndu töluvert á bak- og kviðvöðva en við erum auðvitað öll almannavarnir. Hann tjáði mér þá að það vantaði eitthvað í pöntunina og ég þyrfti að hafa samband við hans yfirboðara. Hann hvarf á braut og ég bar inn pokana. Hvað vantaði kunnið þið að velta fyrir ykkur? Nú auðvitað klósettpappírinn og kaffið. 

Það eru ekki öll ævintýri eins.

föstudagur, 25. mars 2011

Kæru vinir,
í síðustu viku lenti ég í afar óskemmtilegri lífsreynslu. Dagurinn byrjaði eins og hver annar og átti ég mér einskis ills von þegar ég hélt af stað niður í miðbæ til að sinna hinum ýmsu erindum. Lífið lék við mig og ég gekk léttfætt niður Kærleiksstíg. Fyrsti áfangastaður var Borgarbókasafnið, þar var ég með nokkrar bækur í láni sem ég hafði trassað að skila (sorry með mig Brynhildur). Á bókasafninu iðaði allt af lífi og lífshamingju, bókasafnsverðir minntu á persónur í söngleik og safngestir voru allir í andlegu jafnvægi. Ég skilaði bókunum og fékk enga sekt. Lífið var dans á rósum og ég sveif á bleiku skýi yfir í Fríðu frænku og gladdi þar augu og anda. Símtal frá Eygló stórvinkonu þar sem hún bað mig að koma með sér í sund og eiga þar með sér góða stund. Hún bauðst meira að segja til að koma og sækja mig, mér lá við yfirliði. Gekk í yfir í Eymundsson þar sem ég tók mér blað í hönd, fékk mér sæti og naut þess að horfa yfir mannlífið í Austurstræti. Skyndilega heyri ég einhver óhljóð og sé útundan mér ungan mann hlaupa upp stigann fyrir aftan mig. Á eftir honum hleypur starfsmaður sem biður unga drenginn vinsamlegast um að skila því sem hann hafi tekið. Ekki stendur á svarinu og sá ungi hreytir út úr sér að hann hafi sko ekki verið að stela skít. Um mig fór kaldur hrollur og ég fékk gæsahúð. Ekki svona góða gæsahúð eins og maður fær stundum heldur svona óþæginlega. Líður og bíður og loks kemur að sund stund og þar sem ég er hrædd við að brjóta reglur fer ég að skila tímaritinu í viðeigandi hillu. Þegar ég svíf niður á fyrstu hæð sé ég unga manninn aftur. Ég stressast öll upp og staðset mig bakvið bókahillu. Hann er gjörsamlega sturlaður og hótar barsmíðum. Ég verð ennþá hræddari og er farin að skýla mér á bakvið hilluna, biðja guð að bjarga mér og aftur komin með vonda gæsahúð. Það er mikið á mann lagt. Eftir orðastríð þar sem hart var barist og mörg ljót orð notuð bakkar sá ungi út úr búðinni en grípur stein og grýtir honum af afli inní búðinna. Þegar hér var komið við sögu var ég næstum búin að kasta mér niður stigann fyrir aftan mig en ég hafði einmitt staðsett mig við hann ef ég skildi þurfa að grípa til örþrifaráða. Svo þorði ég ekki útúr búðinni afþví ég var svo hrædd um að ungi maðurinn myndi ráðast á mig eða kalla eitthvað ljótt á eftir mér. Ég er ekki gerð fyrir svona spennu, ég er svo viðkvæmt blóm. Á endanum neyddist ég hinsvegar til að yfirgefa Eymundsson enda var ég líka svolítið skelkuð um að sá ungi myndi láta sjá sig aftur og kannski með gengi af ungum vinum sem engu hafa að tapa með sér. Ég hefði pissað á mig. Ég valdi því nokkra sterkbyggða herramenn sem ég fylgdi útúr búðinni og gekk svo á eftir þeim góðan spöl. Svo stressuð var ég eftir þessa óhugnarlegu lífsreynslu að ég neyddist til að fara á Dillon og fá mér tvo bjóra til að róa taugarnar. Samt var bara mánudagur.

Ég er líka búin að senda þessa sögu til lífsstílsblaðsins VIKAN og ef allt gengur að óskum mun ég eiga lífsreynslusögu hjá þeim í næsta tölublaði. Þá myndi gamall draumur rætast og ég yrði einn glaður kisi.

miðvikudagur, 16. mars 2011

Kæru vinir,
það er allt í lagi að fara á núðluhúsið þrisvar sinnum í viku. Það er líka allt í lagi að fara á subway þrisvar sinnum í viku. Það er jafnvel ennþá betra ef starfsmenn téðra veitingastaða þekkja þig í sjón og heilsa með virktum í hvert skipti sem þú gengur inn. En betra er þegar þeir vita nákvæmlega hvað þú ætlar að fá. Það er allt í lagi ef þetta á sér allt stað í einni og sömu vikunni. Það sýnir bara að þú ert upptekin við aðra og merkilegri hluti en að elda ofaní sig (þó svo að þú sjálf sért meðvituð um þá staðreynd að þú ert bara löt. Settu bara upp svona smá bugaðan svip eins og þú sért sko búin að vera á fullu í allan dag). Svo vita líka allir að það er ekkert chic við stór eldhús með fullt af eldhústækjum. Lítil, krúttleg og full af te-i og kertum eru the way forward. Ég las það á tískubloggi.

Þetta er allt allt í lagi.

föstudagur, 7. janúar 2011

Kæru vinir,
þegar ég byrjaði að blogga tók ég meðvitaða ákvörðun um að biðjast aldrei afsökunnar á því hversu langar færslurnar yrðu, hversu langt liði á milli þeirra eða hversu ótrúlega samhengislausar og kjánalegar þær yrðu. Ég hef staðið við það. Hins vegar verð ég augljóslega að endurskoða blogglíferni mitt. Ég hef staðið mig með eindæmum illa. Jafnvel valdið sjálfri mér vonbrigðum. Samt er ég með þessar ótrúlegu bloggfyrirmyndir sem glamúrgellan og Tobba Marinós eru. Tobba er sko að drita inn nánast einni færslu á dag! Glamúrgellan er ekki alveg jafn dugleg enda búin að vera að glíma við prófstress mikið og núna sár á nefi, hún stendur samt alltaf fyrir sínu.

Ég sé að síðan í seinustu færslu hefur ýmislegt á daga mína drifið, ég er flutt inní nýja íbúð. Með téðri Ásdísi. Þar drekkum við mikið te og mikið rauðvín. Hinsvegar hef ég ekki enn lagst í framkvæmdir á gardínum og ekki bjó ég til jólatré. Kannski fyrir næstu jól. Hinsvegar fékk ég vinnu og er líka hætt í henni. Ekki meira um það að segja.

Á mánudaginn byrjar Háskólinn, á maður ekki annars að skrifa hann með hástaf? Ég er titrandi taugahrúga yfir þessu öllu. Háskólanum og hástöfum.

þriðjudagur, 16. nóvember 2010

lóan er komin.

Komin til Íslands eftir dramatíska flugferð. Það er einstaklega erfitt að ferðast með 70kg og allskonar handfarangur. Ég þurfti að klæðast mjög mörgum fötum á leiðinni og svitnaði eins og svín í vélinni. Lífið er erfitt. En allt hófst á endanum og ég er komin heim. Bless bless London líf og halló Reykjavík!

Bráðum flyt ég svo inní nýja íbúð með Dísu Ólafs. Ég er mjög spennt og mitt fyrsta verk verður að búa til gardínur úr öllum silkislæðunum mínum. Verður áhugavert að sjá hvernig það mun koma út. Ég ætla líka að búa til jólatré.

Svo vantar mig líka vinnu.

sunnudagur, 29. ágúst 2010

Baila Baila Baila Baila Baila Baila Baila me

Hvernig geta gipsy kings verið svona mikil snilld? Þeir gera alla daga að góðum dögum. Ég þarf gipsy king í mitt líf. ASAP.


Annars er svo mikið af djammi á næstu vikum að ég veit ekki hvernig ég á að fara að. Hef þess vegna ákveðið að gera þessa viku að viku lifrarinnar. Greyið fer að gefast upp, ég skil í alvöru ekki hvernig þessir bretar fara að þessu.

föstudagur, 20. ágúst 2010

HÆ.

Ég þoli ekki þegar fólk labbar hægt fyrir framan mig. Getur það ekki skilið að ég er að flýta mér? Ég þarf sko að gera allskonar mikilvæga og spennandi hluti. Tilitsleysið algjört. Þetta gerir mig samt ekki jafn reiða og að fara í primark. Þanngað þarf ég að fara í ótrúlegu andlegu jafnvægi, annars er voðinn vís. Svo þarf ég líka að hlusta á róandi tónlist þegar ég er þar inni og helst hafa með mér vatn. Mjög mikilvægt að innbyrða vökva í svona ástandi. Ef ég væri skynsöm myndi ég sjáflsagt bara hætta að fara þanngað. Ég er bara svo meðvirk og það fara allir í primark.

Annars er ég núna komin með mjög stutt hár. Næstum eins og drengur. Kannski virkar það betur til að næla sér í karlmenn. Ég er öll í tilraunastarfsemi. Það er svo mikilvægt að prófa nýja hluti.

þriðjudagur, 27. apríl 2010

herra jón.

Kæru vinir,
blogg einu sinni í mánuði, það er þeminn. Ég er eins og Rósa frænka. Stundum nákvæmlega mánuður og stundum nokkrir dagar framyfir. Bara til að láta ykkur svitna smá og gera ykkur grein fyrir hversu kærkominn gestur ég í raun og veru er. Mögulega lita ég hárið á mér rautt á komandi dögum. Væri permanet ekki of langt gengið?

Gott að frétta. Ég er alltaf í vinnunni. Það er ágætt. Þegar ég klára að vinna fer ég svo í drykki með vinnufélögunum og svo þegar ég er í fríi stoppa ég við í vinnunni og fæ mér frítt kaffi og heilsa uppá vinnufélaganna. Ég er mjög takmörkuð í öllu svona.

Vinnufélagarnir eru ágætir. Sumir betri en aðrir og aðrir fyndnari en sumir. Eins og einn maður sem ég ætla að kalla Jón. Bara svona ef einhverjir af vinnufélögunum skyldu fara inná bloggið mitt, skella því í google translate og segja til mín. Maður tekur engar áhættur. Í London er sko mikið atvinnuleysi. Og ég vil ekki verða ein af betlurunum. Það kann enginn vel við þá, það er líka oft vond lykt af þeim. Og einn þeirra á ekki belti svo maður sér alltaf djásnið hans þegar hann biður um pening. Það er frekar óþægilegt. Aftur að Jóni. Nú hef ég ekki alveg á hreinu hvaða starfi Jón gegnir innan the Luxe. Og vinsamlegast athugið að ég hef unnið þar í tæpa 2 mánuði nú þegar. En starf hans virðist hinsvegar krefjast þess af honum að hann labbi hratt útum allt. Sem er auðvitað ágætt útaf fyrir sig, maður brennir fleiri kaloríum með því að labba rösklega. Jón labbar rosalega hratt alltaf útum allt og er svaka mjór. Hann er líka með stælt læri, maður sér það í gegnum níðþröngar gallabuxurnar. Þess má til gamans geta að þær eru einnig skreyttar með semalíusteinum. Nú drekkur Jón kamillu te í öll mál. Kannski er það grennandi líka, eða kannski finnst honum kaffið mitt bara vont. Ég er stór stelpa og get dílað við það. Allavega Jón labbar hratt, virðist vera upptekinn og drekkur mikið kamillute. Svo til að kóróna allt saman er Jón líka með litaðar augabrúnir. Sjálf set ég alltaf stórt spurningamerki við karlmenn með litaðar augabrúnir. Ásgeir Kolbeins einhver? En kannski eru þetta bara fordómar í mér. Um daginn kom ég líka að Jóni inná lager hlustandi á ipodinn sinn að hlusta á lagið I wanna know what love is með Mariah Carey (mér finnst áhrifameira ef þið horfið á vídjóið líka, sjálf er ég búin að horfa á það þrisvar. Grét tvisvar.)
Jón hrökk í kút þegar hann áttaði sig á að ég stóð fyrir aftan hann og við deildum vandræðalegri stund inná lager. Og ekki á góðan hátt. Jón er sko aldeilis engin Mariah Carey. Nóg um Jón, ég man ekki einu sinni afhverju ég byrjaði að blogga um hann. Ansans.

Tody hefur það enn gott. Við gefum honum alveg stundum að borða núna. Það er mun betra en aldrei. Honum er meira að segja farinn að vaxa fiskur um hrygg, þó að hann sé froskur. Ég er ekki frá því að ég sjái móta fyrir smá tussubumbu á honum. Eitthvað verður að gera í því. Bráðum ætla ég að setja inn vídjó af honum að borða.

Og já, öllum í vinnunni finnst voða fyndið að kalla mig the volcano. Mér finnst það ekki alveg eins fyndið. En samt alveg pínu.

þriðjudagur, 23. mars 2010

lóan er komin.

Kæru vinir,
ég er snúin aftur og er ekki dauð úr öllum æðum. Margir (frekar fáir) höfðu áhyggjur af afdrifum mínum og óttuðust jafnvel um líf mitt. Ég þakka hugulsemina, en það er ekkert að óttast. Óhult ég er.
Ég er hinsvegar búin að standa í ströngu við flutninga og atvinnuleit.
Núna er ég komin með vinnu, það gekk þó ekki áfallalaust fyrir sig því áður en ég eignaðist þessa vinnu þá eignaðist ég aðra vinnu. Sem var ekki góð og ekki skemmtileg. Það var pínu leiðinlegt. En núna er skemmtilegt.
Í dag lifi ég í íbúð með meðleigjendum mínum Steindóri Esju, Alex Wilson og Tody. Tody er froskur sem albínói. Tody hefur ekki fengið mat í rúmar tvær vikur, maður þarf að vera skinny í austur london. Það er mjög mikilvægt. Hann er samt sprækur sem lækur og spriklar eins og enginn sé morgundagurinn við ljúfa tóna örlagabarnsins. Uppáhalds lagið hans er bootylicious, hann missir alveg stjórn á sér um leið og það fer í gang.

Annars er einstaklega gott að frétta. Ég hef það mjög gott og London er góð snilld. Ég er að vinna á veitingastað sem heitir the Luxe og er á Spitalfields marked. Eigandi staðarins er frægur maður, svona eins og Geir Ólafs. Hann er celebrity chef. Eins og Gordon Ramsay. Hann er samt hvorki Geir Ólafs né Gordon Ramsay, hann er þarna mitt á milli. Hann er John Torode og enginn á Íslandi veit hver hann er. Hér er hann samt frægur, ég lofa. Það er mjög stressístressandi að gera kaffi handa honum, hann er með rosalega viðkvæma palettu sjáið þið til.

Á laugardaginn var innflutningspartý. Þar tókst okkur að reita nágranna okkar til reiði, vel gert við. Það kunna ekki allir vel að meta Hall og Oats. Mér og meðleigjendum til mikillar undrunnar. Ég ætla ekki að segja meira.


Tody lookalike, hann er mjög sjarmerandi. Ég lofa.

laugardagur, 27. febrúar 2010

heit flaga.

Kæru vinir,
í þessum töluðu orðum er stórvinur minn og tilvonandi meðleigjandi, Stehn, á tónleikum með bandinu Hot Chip. Stehn er þó ekki maður einsamall á tónleikunum því hinn tilvonandi meðleigjandi minn og einnig tilvonandi stórvinur, Vitamin A, hristir einnig á sér rassinn í kvöld. Það var þó (tilvonandi) tilviljun, nema þeir séu að reyna að vera lúmskílúmsk og skilja mig útundan. Á meðan þeir skemmta sér konunglega hef ég farið nokkrar ferðir á chatroulette (ég er enn að leita að sófa sjarmörnum), horft á Greys Anatomy og gert allskonar annað ómerkilegt. Þetta er í alvöru ekki frásögu færandi.

6 mars munum við þríeykið svo halda innreið okkar á framtíðarheimilið, þar bíður okkar kristalsljósakróna og líka mjög ljótar flísar. Svo eru líka 6 risastórir borðstofustólar, en ekkert borðstofuborð. Ég stefni á að nota línuna "fáðu þér sæti, sæti." Mjög oft, og er ekki við öðru að búast en að það falli í góðann jarðveg. Annars er íbúðin snilld.

Ég dag fór ég í atvinnuprufu á einu kaffihúsi. Það er smá frásögu færandi. Aðalega fyrir þær sakir að upp að mér vatt sér fastakúnni sem spurði mig að nafni. Sagði ég eins og venjulega að ég væri kölluð Lóa (það er svo mikilvægt að vera með svona alter-ego í útlöndum, djók.) Hann ákvað þá að bregða fyrir sig betri fætinum og smellti fram brandaranum "So, I guess you´re pretty down all the time? hehe." Ég skildi ekkert hvað á mig stóð veðrið. Eftir smá stund kom svo í ljós að hann hélt ég héti Low. Sem ég heiti því miður ekki.


Hundarnir eru færslunni algjörlega óviðkomandi. Ég vil bara svo mikið eignast svona. Þeir eru svo fallega ljótir. Svo hef ég líka verið með frekar mikið blæti fyrir postulíns dýrum undanfarið, það er ekkert til að skammast sín fyrir.