föstudagur, 25. mars 2011

Kæru vinir,
í síðustu viku lenti ég í afar óskemmtilegri lífsreynslu. Dagurinn byrjaði eins og hver annar og átti ég mér einskis ills von þegar ég hélt af stað niður í miðbæ til að sinna hinum ýmsu erindum. Lífið lék við mig og ég gekk léttfætt niður Kærleiksstíg. Fyrsti áfangastaður var Borgarbókasafnið, þar var ég með nokkrar bækur í láni sem ég hafði trassað að skila (sorry með mig Brynhildur). Á bókasafninu iðaði allt af lífi og lífshamingju, bókasafnsverðir minntu á persónur í söngleik og safngestir voru allir í andlegu jafnvægi. Ég skilaði bókunum og fékk enga sekt. Lífið var dans á rósum og ég sveif á bleiku skýi yfir í Fríðu frænku og gladdi þar augu og anda. Símtal frá Eygló stórvinkonu þar sem hún bað mig að koma með sér í sund og eiga þar með sér góða stund. Hún bauðst meira að segja til að koma og sækja mig, mér lá við yfirliði. Gekk í yfir í Eymundsson þar sem ég tók mér blað í hönd, fékk mér sæti og naut þess að horfa yfir mannlífið í Austurstræti. Skyndilega heyri ég einhver óhljóð og sé útundan mér ungan mann hlaupa upp stigann fyrir aftan mig. Á eftir honum hleypur starfsmaður sem biður unga drenginn vinsamlegast um að skila því sem hann hafi tekið. Ekki stendur á svarinu og sá ungi hreytir út úr sér að hann hafi sko ekki verið að stela skít. Um mig fór kaldur hrollur og ég fékk gæsahúð. Ekki svona góða gæsahúð eins og maður fær stundum heldur svona óþæginlega. Líður og bíður og loks kemur að sund stund og þar sem ég er hrædd við að brjóta reglur fer ég að skila tímaritinu í viðeigandi hillu. Þegar ég svíf niður á fyrstu hæð sé ég unga manninn aftur. Ég stressast öll upp og staðset mig bakvið bókahillu. Hann er gjörsamlega sturlaður og hótar barsmíðum. Ég verð ennþá hræddari og er farin að skýla mér á bakvið hilluna, biðja guð að bjarga mér og aftur komin með vonda gæsahúð. Það er mikið á mann lagt. Eftir orðastríð þar sem hart var barist og mörg ljót orð notuð bakkar sá ungi út úr búðinni en grípur stein og grýtir honum af afli inní búðinna. Þegar hér var komið við sögu var ég næstum búin að kasta mér niður stigann fyrir aftan mig en ég hafði einmitt staðsett mig við hann ef ég skildi þurfa að grípa til örþrifaráða. Svo þorði ég ekki útúr búðinni afþví ég var svo hrædd um að ungi maðurinn myndi ráðast á mig eða kalla eitthvað ljótt á eftir mér. Ég er ekki gerð fyrir svona spennu, ég er svo viðkvæmt blóm. Á endanum neyddist ég hinsvegar til að yfirgefa Eymundsson enda var ég líka svolítið skelkuð um að sá ungi myndi láta sjá sig aftur og kannski með gengi af ungum vinum sem engu hafa að tapa með sér. Ég hefði pissað á mig. Ég valdi því nokkra sterkbyggða herramenn sem ég fylgdi útúr búðinni og gekk svo á eftir þeim góðan spöl. Svo stressuð var ég eftir þessa óhugnarlegu lífsreynslu að ég neyddist til að fara á Dillon og fá mér tvo bjóra til að róa taugarnar. Samt var bara mánudagur.

Ég er líka búin að senda þessa sögu til lífsstílsblaðsins VIKAN og ef allt gengur að óskum mun ég eiga lífsreynslusögu hjá þeim í næsta tölublaði. Þá myndi gamall draumur rætast og ég yrði einn glaður kisi.

3 ummæli:

Ásdís sagði...

Hver þarf kisu þegar hann á Lóu?

glamurgella.blogspot.com sagði...

Mér finnst það ótrúlegast við þetta blogg ekki það hversu skemmtilegan stíl þú hefur, heldur að þú hafir í alvöru ekki sagt mér frá þessari sögu áður en þú ritaðir hana hér.

Ritstjórinn sagði...

Til þess að eiga möguleika á að fá grein birta í Vikunni, þarf hún að innihalda frásögn af baráttu þinni við að minnsta kosti eitt af eftirfarandi:
Einelti,
misnotkun
eða offitu.

Vinsamlegast hafðu það í huga næst þegar þú sendir okkur grein til birtingar. Ef þú gætir hnoðað saman grein sem inniheldur öll þrjá viðfangsefni myndi ég glaður veita þér forsíðuviðtal.

Kv.