fimmtudagur, 17. desember 2009

undir undirskálinni (kaffi sápa)

Er hinn brazilíski ítölskumælandi Carlos Antonio Banderas sá sem hann segist vera og hvaða tilgangi gegnir koma hans á kaffihúsið? Hver er hin raunverulega fortíð hans og afhverju laug hann til um hæfileika sína á kaffivélinni? Og hvaða sjampó notar hann til að viðhalda slíkum krullum og gljáa í tinsvörtu hárinu?
Hefur hin skapstóra ungverska Livia yfirgefið England fyrir fullt og allt án þess að kveðja kóng né prest? Mun hún ná stjórn á skapofsaköstum sínum eða er þörf á að leita hjálp sérfræðinga?
Hversu lengi hefur hinn innfæddi Jake verið að stela úr kassanum? Og hver kom upp um hann?
Mun hin pólska Renatta loksins ná stjórn á megrunarkúrnum og brenna nokkrum kílóum á komandi mánuðum? Ekki ef hún heldur áfram að horfa girndaraugum á gulrótarkökuna (sem er 500 kcal.).
Mun ungverska leikkonan Flora snúa aftur á kaffihúsið fyrir Carlos eftir að hafa sagt upp vinnunni eftir dramatískt rifrildi við samlanda. Mun Carlos brjóta hjarta hennar og hún halda áfram að vinna sem kokkur á franska veitingastaðnum í Westbourne?
Fékk hinn breski Adam í raun og veru matareitrun af New York Deli samlokunni?
Mun yfirmaðurinn Sati fá taugaáfall fyrir eða eftir jól?
Hvað með fastakúnann Susie? Hvar hefur hún verið undanfarna daga....

Get ekki lýst því hversu búin á því ég er eftir þessa tíðindamiklu viku á kaffihúsinu.

fimmtudagur, 10. desember 2009

núðlur og borðar.

Kæru vinir. Um níuleitið í gær kom ég heil á höldnu aftur til Bmouth (eins og við flippararnir köllum Bournemouth, he he he) eftir stórbrotna Lundúnaför. Ég veit að þið höfðuð öll áhyggjur af afdrifum mínum og eruð búin að vera að bíða frétta, ég var ekki stungin eða skotin eins og ég hafði ímyndað mér. Slapp fyrir horn.
Elín Rut á miklar þakkir skildar fyrir gestrisni og að vera almennt séð ánægjulegur félagskapur. Hún svaf meira að segja á loftlausri vindsæng með teppi og leyfði mér að kúra í rúminu með sæng. Sannkallaður höfðingi heim að sækja.
Í London gerði ég allskonar hluti. Labbaði mikið (sem útskýrir blöðrur á fótum), borðaði mikið (sem útskýrir hversu þung ég er á fæti), drakk mjög mikið kók (sem útskýrir ekki neitt), og eyddi miklum pening (sem útskýrir hræðilega stöðu á debitkorti). Er þetta því vikan þar sem pot noodles munu koma sterkar inn. Nú þakka ég guði fyrir fyrri hrakningar, ég bý nú yfir þekkingu sem nær nákvæmlega yfir það hvaða núðlusúpa bragðast best og er ódýrust. Allt á sér ástæðu.
Annars sannfærði þessi Lundúnaför mig endanlega um brottflutning frá Bmouth, það sem hafði mest áhrif á þessa ákvörðun mína var borðabúð. Full búð af borðum (ath ég er ekki að tala um húsgögn til að sitja við, þó ég sé mjög hrifin af þeim líka. Í miklu uppáhaldi er Tulip borðið hans Eero Sarriens. En svoleiðis hugleiðingar fá kannski bara sér færslu). Orð eru óþörf, ég var sannfærð. Hugsa að ég flytji í feb, á eftir að greina meðleigjendum mínum frá ákvörðun minni. Verður vafalaust erfitt, enda eiga þau stóran part af hjarta mínu. Ég sé fram á tilfiningaríka kveðjustund, þar sem við munum öll fallast í faðm. Ég er klökk þegar ég rita þessi orð og læt því hér við sitja áður en ég brest í óstöðvandi grát.
meðfylgjandi eru nokkrar mender:

sunnudagur, 6. desember 2009

lífið.

í dag sá ég fjögurra (djöfull er þetta skrýtið orð) manna dvergafjölskyldu. Mér finnst líf mitt betra á einhvern undarlegan hátt sem ég get ekki útskýrt.

Á morgun fer ég til LONDON. Spenntíspennt.

mánudagur, 23. nóvember 2009

decaf skinny latte.

Ferðin til Southampton gekk stóráfallalaust fyrir sig og fann ég job centerið þar sem viðtalið fór fram án mikilla erfiðleika þökk sé frumstæðu ungversku korti og minni eigin sjálfsbjargar viðleitni (maður má ekki gefa þessum ungverjum allt kreditið). Er ég kom í viðtalið varð þó uppi fótur og fit í þessari annars viðurlegu stofnun. Herramaðurinn sem stjórnaði viðtalinu sagði mér með öndina í hálsinum frá því að þau hefðu aldrei áður séð íslenskt vegabréf. Þessari staðhæfingu fylgdi hann svo eftir með nokkrum spurningum um Ísland sem ég svaraði að sjálfsögðu samviskusamlega, og með mikilli ánægju.

Eftir þessa stórbrotnu reynslu rölti ég um Southampton í nokkra klukkutíma og fór í ikea. Sem var unaðslegt. Eftir tvo stórkostlega klukkutíma þar inni neyddist ég hinsvegar til að taka rútuna heim. Það var einmitt á því augnabliki sem ég áttaði mig á því að stórinnkaup í ikea eru ekki góð hugmynd þegar ferðast er með rútu og því síður þegar þú neyðist til að labba ágætis vegalengd úr rútunni á warren road. Ég kaus að bera fjárfestingar mínar á bakinu og er enn að jafna mig. Það að vera lasílas bætti heldur ekki úr skák.

Annars get ég ekki trúað að fólk sem fær sér decaf skinny vanilla latte sé mjög skemmtilegt, það lítur allavega ekki út fyrir það. Sorry með mig.

mánudagur, 9. nóvember 2009

fréttir af LOZ.

vinir og vandamenn,
allskonar hluti hefur á daga mína drifið síðastliðnar vikur. Ekkert rosalega merkilegt þó, sem er synd og skömm. Get þó glatt ykkur með þeim fréttum að ég hef loksins fengið útborgað og hef því lagt pot noodles á hilluna. Í bili að minsta kosti. Til að halda uppá téða útborgun ákvað ég að verðlauna sjálfan mig fyrir vel unnin störf, mjög mikilvægt las það í einhverri sjálfshjálparbók, og fara út að borða. Ég fann þó engan til að fara út að borða með (vinir eru af skornum skammti í GB) og ákvað þessvegna bara að fara ein. I am a proud woman and I don´t need anybody og allt það. Gékk ég því inná fínan indverskan restaurant í nágrenninu og bað um borð fyrir einn. Þegar ég gekk í gegnum borðsalinn áttaði ég mig hinsvegar á því að ég var í orðsins fyllstu merkingu ein úti að borða. Veitingastaðurinn var tómur fyrir utan mig. Og 5 indverska þjóna sem allir horfðu á mig borða af miklum áhuga. Það var í senn óþægilegt og ánægjulegt að fá alla þessa athygli frá 5 karlmönnum.

Annars á ég núna um það bil 7 vini. Og er ég frekar ánægð með þá tölu, þó að miðað við höfðatölu sé það auðvitað skelfileg frammistaða. Ég hugsa að ástæðan fyrir að ég á ekki helmingi fleiri vini sé sú að ég er orðin svo skelfilega þjóðernissinnuð að það nær engri átt, það er örugglega skelfilega leiðilegt að hlusta á mig. Athugið samt að sú vitneskja stoppar mig samt alls ekki í því að lofsyngja Ísland, þetta er eins og að vera fíkill. Fólk þarf ekki nema að nefna eitthvað tengt ís og þá er ég komin á fulla ferð. Ég stóð sjálfan mig að því um daginn að lýsa hálendi Íslands með tárin í augunum, og ég hef ekki einu sinni komið á hálendið. En ég hef hinsvegar séð stórkostlegar myndir.

Annars gengur vinnan bara ansi vel og er ég búin að fá barmmerki og nafnbótina barista. Sem er auðvitað stórt persónulegt afrek og eru mamma og pabbi ótrúlega stolt af mér. Samkvæmt barmmerkinu heiti ég þó LOZ en ekki LÓA. Hef ekki hugmynd um hvernig costa tókst að klúðra þeirri einföldu stafsetningu. Það eru bara einfaldlega ekki allir jafn gáfaðir og við Íslendingar.

Á þriðjudaginn held ég svo til Southampton til að fá national insurance number sem ég er búin að bíða í rúmlega mánuð eftir að fá. Það er ótrúlega tímafrekt að vera útlendingur í útlöndum. Eina jákvæða við þessa glæfraför á þriðjudaginn er það að IKEA er einmitt staðsett í Southampton og ég er ótrúlega spennt. Þó að auðvitað sé IKEA á Íslandi best í heimi, það er örugglega ekki sama lúxus bragðið af kjötbollunum.

LOZ - the barista

laugardagur, 24. október 2009

partýpar.

Við íbúarnir á Warren road 1a erum jafn ólík og við erum mörg. Fremst á meðal jafningja hlýtur þó að vera par sem kennt er við partý. Partýparið er þó ekki bara partýpar, það er líka takeawaypar, kisupar, WorldofWarcraftpar og sjónvarpspar. Fjölhæf eru þau.
Partýparið hefur ekki gaman af ljóðalestri eða löngum göngutúrum á ströndinni eins og öll önnur venjuleg pör sem ég þekki, samanber ofurparinu Ásgrími og Halldísi. Ónei, þvert á móti. Partýparið eyðir öllum frítíma sínum fyrir framan tölvu eða sjónvarpsskjá.

PartýKK, á að giska 22 ára karlmaður í yfirvigt, er (vægast sagt) áhugasamur world of warcraft spilari. Hann hefur reyndar áhuga á öllum tölvuleikjum sem framleiddir hafa verið. Síðan ég flutti inn hef ég, grínlaust, einu sinni séð hann úti við. Og það var ekki fögur sjón. Gagnsær og bólóttur sligaðist hann upp götuna á móti mér, aðframkominn. Enda sennilega ekki fengið svona mikla hreyfingu síðan árið 1992.
PartýKK vaknar uppúr hádegi kveikir á tölvunni og spilar WoW fram á rauða nótt og jafnvel alla nóttina ef sá gállinn er á honum, sem er frekar oft. Sem betur fer hefur hann eignast vinnu núna og er það jákvætt fyrir alla heimilismeðlimi. Loksins er hægt að borða við eldhúsborðið. PartýKK er einnig algjör sjarmör og finnst ofboðslega gaman að rasskella partýKVK og kalla hana beibí.

PartýKVK, 22 ára þýsk horengla, er metnaðarfullur starfskraftur samloku risans Subway. Hún vinnur mikið og í hvert skipti sem hún kemur heim úr vinnunni setst hún fyrir framan sjónvarpið og horfir á það þar til hún fer að sofa. Hún getur þulið upp fyrir þig sjónvarpsdagskrá flestra stöðvanna. Trúið mér, ég prófaði það um daginn. Eina sem ég hef séð hana geta fyrir utan þetta er að elda mat handa partýKK, sem hlýtur reyndar að teljast sem metnaðarfullt verkefni því mannsvínið étur ótæpilega.

Saman á partýparið kisa, Mango. Mynd af honum má sjá í færslunni fyrir neðan. Partýparið lítur á Mango sem son sinn og hlúir að honum eftir því. Þau sýna honum jafnmikla ást og athygli og mama goose sýnir litlu mús. Í hvert skipti sem Mango stekur upp á sjónvarpið, sem virðist yfirleitt gerast þegar ég er að reyna að horfa á það. Þá kalla þau hvort á annað: Ohh baby look what he is doing, look!!! (athugið ótrúlega enskukunnáttu mína, er farin að geta myndað setningar.) Og verða mjög æst, sem mér þykir óskiljanlegt því kisi er óþolandi. En hverjum þykir sinn fugl fagur býst ég við.

Annars er gott að frétta.

fimmtudagur, 22. október 2009

mynder.

(L)

Warren Road.


Mango - kötturinn sem ég elska að hata.

Maður í jóga.

sunnudagur, 18. október 2009

fry up.

Kæru vinir, rúmlega tvær vikur síðans síðast og nánast mánuður frá brottför. Tíminn flýgur og dvöl mín í Englandi er með eindæmum ágæt. Frá því síðast hef ég eignast nýtt heimili. Nýtt mjög skítugt heimili sem ég stefni á að þrífa all svakalega á morg. Svona afþví ég er í fríi í vinnunni.

Sambúðin með 6 manneskjum gengur vel og er furðu hljóðlát, það eru mestu lætin í mér. Ásamt mér býr hér pólskur maður sem hreyfir sig eins og skugginn, hann heitir Georgio. Hann vinnur á Starbucks. Andrúmsloftið er því rafmagnað þegar við erum bæði heima við. Við skjótum eitruðum augnaráðum á hvort annað hvenær sem tækifæri gefst og hreytum ónotum í hvort annað í tíma og ótíma. Hér er býr einnig stórvinur minn surferdave sem er ágætis piltur, ég titla hann og Adam einu raunverulegu vini mína hérna í GB. Surferdave er búin að vera einstaklega duglegur við að elda fyrir mig og þá aðallega breskan mat. Seinasta sunnudag eldaði hann roast dinner sem er víst svakalega bresk máltíð. Trúði því varla þar sem það smakkaðist mjög vel. Í gær fékk ég svo fry up sem er víst ennþá breskara, og því trúi ég vel.
Mynd af fry up. Reyndar ekki þeirri sem ég snæddi, hún leit enn verr út.

Annars er ég búin að vera að vinna mjög mikið og er að eigin sögn frábær starfsmaður. Í dag fékk ég meira að segja að hella uppá kaffi, með umsjón yfirmanns þó. Þau taka uppáhellingar mjög alvarlega á Costa og ætti ég með réttu að vera búin að fylla út barista workbook-ina mína áður en ég fæ að snerta tryllitækið. Svona er maður heppin. Með mér vinnur svo allskonar fólk eins og t.d. áðurnefndur Adam. Er einnig að vinna með ágætisstelpu frá Ungverjalandi sem er vinkona mín. Nema þegar hún segir að ég líti út eins og 14 ára barn. Sem hún gerir frekar oft og þá verð ég sko pirrípirr. Í dag skar ég mig smá (lifi enn á brúninni þó ég sé í GB) og þurfti aðstoð við að koma fyrir plástri þá tók hún andköf og sagði mér að ég væri sko með rosalega chubby hendur. Frábært. Ég vona innilega mín vegna að það sé rosalega heitt í Ungverjalandi að líta út eins og fjórtán ára barn með búttaðar hendur. Leyfi mér samt að efast stórlega um það...

sunnudagur, 4. október 2009

vinur minn.

Frá því síðast hef ég eignast eina vinnu og einn vin. Vinnan er á kaffihúsi og vinur minn vinnur með mér á kaffihúsinu. Hann er svona starfsmaður mánaðarsins týpa, ef þið skiljið hvað ég er að fara. Vininn ætla ég að kalla A og er hann 20 ára rauðhærður karlmaður. A er samt ekki mjög karlmannlegur og á líka kærasta. Þar fóru allir draumar um kelerí inná lager, bömmer maður. Þegar vinur minn afgreiðir þá reynir hann að hreyfa sig eins og vindurinn og hlær smeðjulega að öllu sem viðskiptavinurinn segir, undir venjulegum kringumstæðum færi hann sennilega óstjórnlega í taugarnar á mér. En þar sem ég er ekki í mínu venjulega umhverfi finnst mér hann bara frekar krúttlegur.

A fékk sem sagt það mikilvæga hlutverk að sýna mér hvernig allt virkar. Á milli þess sem hann sýndi mér hvernig maður setur í uppþvottavélina og hringir á hjálp ef manni skrikar fótur á fatlaðaklósettinu þá læddi hann inn nokkrum spurningum um Ísland. Fyrst var hann mjög feiminn og hallaðir sér örlítið upp að mér þegar hann hvíslaði undrandi: Gyða, er það í alvöru satt sem maður heyrir. Eru í alvöru ekki neinar lestar á Íslandi?!? Þegar ég jánkaði því og sagði að það væri svo sannarlega dagsatt þá nánast trylltist hann úr gleði. Sem ég skil ekki alveg. Ég tryllist allavega ekki úr gleði í hvert skipti sem ég sé lest. Sem betur fer.

Dagurinn leið og ég og nýji vinurinn fórum saman í kaffi. Í kaffinu hélt spurningalistinn áfram og reyndi ég eftir bestu getu að fræða A um land og þjóð. Loksins beindi hann spurningunum þó að mér og fór að spyrja um mig og mína hagi. Þar sem það veitir mér einstaka ánægju að tala um sjálfan mig tók ég þessu fagnandi. Það stóð þó ekki lengi. Fyrsta spurning A var hver væru mín helstu áhugamál og hvað ég hafði hugsað mér að læra. Sagði ég honum eins og satt er að mig langaði að læra innanhússhönnun og aftur trylltist A. Honum var mikið niðri fyrir þegar hann útskýrði fyrir mér að hann og mamma hans sko eeeeeeeelskuðu svoleiðis og þau hefðu eitt ómældum tíma í að endurhanna íbúðina sem þau búa nú í. Svo sagði hann mér í löngu máli frá húsnæðinu, litunum á veggjunum, teppinu og lýsti húsgögnunum gaumgæfilega og ég reyndi eftir bestu getu að sjá þetta allt saman fyrir mér. Niðurstaðan var frekar undarleg. Svo sagði hann mér líka frá því að hann væri að undirbúa stórfeldar breytingar á svefnherbergi sínu, þar yrði sko ekta japanskur fílingur. Bambus og allt til alls. Get ekki beðið eftir að heyra meira um það.

Á morgun flyt ég inn með sex öðrum manneskjum. Það verður án efa áhugavert.

sunnudagur, 27. september 2009

allskonar.

Ég gafst uppá því fyrir nokkrum dögum að telja tebolla. Hinsvegar hefur hugmynd um að láta setja upp þvaglegg skotið upp kollinum æ oftar, og ég verð að viðurkenna að hún hljómar alltaf betur og betur í höfðinu á mér. Það gengur einfaldlega ekki að eyða svona miklum tíma í Great Britain á loo-inu.

Undanförnum dögum hefur mestmegnis verið eytt í faðmi fjölskyldunnar og sólarinnar. Sorry krakkar en það er eiginlega brakandi blíða hérna megin. Í gær kíkti ég meðal annars á ströndina, í blæjubíl, með lúguna niðri. Það var eiginlega frekar gaman bara. Og ég fékk nokkrar freknur, ekki alslæmt svona í enda september! Ég hef reyndar ekki eignast neina aðra vini en fjölskyldumeðlimi ennþá, og þau neyðast til að láta sér líka vel við mig, en ég býst fastlega við að allt þetta breytist til batnaðar þegar ég dreg upp tópaspelann sem ég fjárfesti í í fríhöfn lands og þjóðar. Þið munuð sjá á facebook þegar vinatalan mín mun rjúka upp úr öllu valdi, þá hef ég augljóslega opnað pelann.

Ég hef þó haft ýmislegt fyrir stafni, um daginn tók ég t.d. strætó ein til Bournemouth. Það væri svo sem ekki frásögu færandi nema fyrir þær sakir að farið kostaði litlar 1600 íslenskar krónur. Gengið er frábært, ég elska það. Ég sat líka efst í tveggja hæða strætó, það var alveg frekar gaman. Fór síðan út á vitlausri stoppustöð og þurfti að labba voða langa leið. Bournemouth er stórborg krakkar.

Og allir þeir sem bíða í ofvæni eftir póstkorti (Brynhildur og Ásdís) gætu þurft að bíða mun lengur. Ég ætlaði nefnilega að fjárfesta í nokkrum sneddí (bara fyrir þig Tóta) póstkortum um daginn og fór inní ótrúlegustu búð sem ég hef á æfi minni komið inní. Hún heitir Clinton cards (þið getir flett þessu upp á google) og sérhæfir sig í sölu á kortum, hún var frekar stór og með mjög mörgum rekkum fullum af allskonar kortum. Nú veit ég ekki hvort svona tíðkast í öðrum löndum enda ekki mjög veraldarvön en man ekki eftir að hafa séð svona í Noregi. Mér féllust allavega gjörsamlega hendur og ákvað í staðin að taka bara myndir af þessu áttunda undri veraldar en þá sveif á mig einhver algjörlega ómöguleg kona og bannaði mér það. Ég þorði ekki annað en að hlýða. Vonbrigði dagsins.

Á morgun held ég svo í atvinnuleit, sæki sennilega um í Clinton cards.

Hér eru svo nokkrar myndir frá því í gær, bara til að vera leiðinleg:






mánudagur, 21. september 2009

hressíhress.

Fyrsti dagurinn er að kvöldi komin og enn sem komið er hefur allt farið friðsamlega fram.  Í dag er ég búin að drekka 7 bolla af te-i og vinsamlegast athugið að ég sleppti allavega tveimur umferðum og kom ekki hingað fyrr en um þrjú leitið!  Tanya og Matt ræddu síðan áðan við mig af temmilegri alvöru að þau hefðu ákveðnar áhyggjur af te-neyslu barna sinna þriggja, þau innbyrða einfaldlega ekki nógu mikið af te-i fyrir þeirra smekk.  Þau voru hinsvega rosalega ánægð með te-neyslu mína, enda lagði ég mig alla fram.

Flugferðin var eldhress enda hafði ég ágætis félagskap og ég flissaði eins og smástelpa við flugtak og lendingu.  Aðeins of mikill smáborgari, allavega miðað við Steindór heimsborgara sem tók öllu saman af einstakri ró.  Í fluginu lærði ég smá víetnömsku af ótrúlegri tölvu í sætinu fyrir framan mig.  Orðið á götunni er að ég hafi hljómað eins og innfædd, enda lagði ég gríðarlegan metnað í framburð (svipaðan og í tedrykkjuna seinna um daginn).  Steindór ákvað hinsvegar að leggja áherslu á rússneskuna og var hann mér engu síðri.  Veit ekki alveg með hversu mikla kátínu við vöktum hjá restinni af farþegum samt.

Í Poole hef ég fengið konunglegar móttökur og verið úthlutað svefnherbegi í risi með sér baðherbergi, sem er algjör lúxus.  Eins og er erum við 11 á heimilinu, því auk mín dvelst hér 5 manna íslensk fjölskylda.  Og vill svo skemmtilega til að við eigum allavega 4 sameiginlega vini.  Maður verður að elska Ísland.  Á morgun hugsa ég að ég skundi í bæinn og fái mér nýjan síma og splæsi jafnvel í breskt símanúmer sem ég mun að öllum líkindindum opinbera hér, bara svona ef einhver vill hringja og anda í símann.

L8er Sk8ers.

sunnudagur, 30. ágúst 2009

afmeyjun.

Eftir að hafa horft öfundar augum á vefsetur Brynhildar Bolladóttur (www.glamurgella.blogspot.com) nú í hartnær 4 ár ákvað ég loks að láta til skara skríða og fá mér eitt slíkt.  Ég kem þó ekki til með að blogga um tilfinningar og handbolta.  Því miður, fyrir svoleiðis færslur neyðist þið til að snúa ykkur yfir til glamúrgellunar.  Hún er meira að segja með link hérna hægra megin.  Ég mun þó blogga um allt það ótrúlega sem vonandi mun henda mig eftir brottflutning frá landi elds og ísa, sem vonandi verður jafn skemmtilegt og handbolti (sérstaklega ef alexander peterson kemur við sögu...)

Lengi vel var uppi sú hugmynd að ég myndi fá mér lénið glansgella.blogspot.com, ég hvarf þó fljótt frá því þegar ég áttaði mig á að með því væri ég sjálfkrafa að skipa mér í flokk með þeim mestu og bestu og tók meðvitaða ákvörðun um að draga mig örlítið til hlés.  En ef maður verður svo bloggari lands og þjóðar er aldrei að vita nema maður skipti bara um url, kannski ég endi bara á að fjárfesta í léninu www.glamurgella.blogspot.com...