Kæru vinir,
blogg einu sinni í mánuði, það er þeminn. Ég er eins og Rósa frænka. Stundum nákvæmlega mánuður og stundum nokkrir dagar framyfir. Bara til að láta ykkur svitna smá og gera ykkur grein fyrir hversu kærkominn gestur ég í raun og veru er. Mögulega lita ég hárið á mér rautt á komandi dögum. Væri permanet ekki of langt gengið?
Gott að frétta. Ég er alltaf í vinnunni. Það er ágætt. Þegar ég klára að vinna fer ég svo í drykki með vinnufélögunum og svo þegar ég er í fríi stoppa ég við í vinnunni og fæ mér frítt kaffi og heilsa uppá vinnufélaganna. Ég er mjög takmörkuð í öllu svona.
Vinnufélagarnir eru ágætir. Sumir betri en aðrir og aðrir fyndnari en sumir. Eins og einn maður sem ég ætla að kalla Jón. Bara svona ef einhverjir af vinnufélögunum skyldu fara inná bloggið mitt, skella því í google translate og segja til mín. Maður tekur engar áhættur. Í London er sko mikið atvinnuleysi. Og ég vil ekki verða ein af betlurunum. Það kann enginn vel við þá, það er líka oft vond lykt af þeim. Og einn þeirra á ekki belti svo maður sér alltaf djásnið hans þegar hann biður um pening. Það er frekar óþægilegt. Aftur að Jóni. Nú hef ég ekki alveg á hreinu hvaða starfi Jón gegnir innan the Luxe. Og vinsamlegast athugið að ég hef unnið þar í tæpa 2 mánuði nú þegar. En starf hans virðist hinsvegar krefjast þess af honum að hann labbi hratt útum allt. Sem er auðvitað ágætt útaf fyrir sig, maður brennir fleiri kaloríum með því að labba rösklega. Jón labbar rosalega hratt alltaf útum allt og er svaka mjór. Hann er líka með stælt læri, maður sér það í gegnum níðþröngar gallabuxurnar. Þess má til gamans geta að þær eru einnig skreyttar með semalíusteinum. Nú drekkur Jón kamillu te í öll mál. Kannski er það grennandi líka, eða kannski finnst honum kaffið mitt bara vont. Ég er stór stelpa og get dílað við það. Allavega Jón labbar hratt, virðist vera upptekinn og drekkur mikið kamillute. Svo til að kóróna allt saman er Jón líka með litaðar augabrúnir. Sjálf set ég alltaf stórt spurningamerki við karlmenn með litaðar augabrúnir. Ásgeir Kolbeins einhver? En kannski eru þetta bara fordómar í mér. Um daginn kom ég líka að Jóni inná lager hlustandi á ipodinn sinn að hlusta á lagið I wanna know what love is með Mariah Carey (mér finnst áhrifameira ef þið horfið á vídjóið líka, sjálf er ég búin að horfa á það þrisvar. Grét tvisvar.)
Jón hrökk í kút þegar hann áttaði sig á að ég stóð fyrir aftan hann og við deildum vandræðalegri stund inná lager. Og ekki á góðan hátt. Jón er sko aldeilis engin Mariah Carey. Nóg um Jón, ég man ekki einu sinni afhverju ég byrjaði að blogga um hann. Ansans.
Tody hefur það enn gott. Við gefum honum alveg stundum að borða núna. Það er mun betra en aldrei. Honum er meira að segja farinn að vaxa fiskur um hrygg, þó að hann sé froskur. Ég er ekki frá því að ég sjái móta fyrir smá tussubumbu á honum. Eitthvað verður að gera í því. Bráðum ætla ég að setja inn vídjó af honum að borða.
Og já, öllum í vinnunni finnst voða fyndið að kalla mig the volcano. Mér finnst það ekki alveg eins fyndið. En samt alveg pínu.