þriðjudagur, 16. nóvember 2010

lóan er komin.

Komin til Íslands eftir dramatíska flugferð. Það er einstaklega erfitt að ferðast með 70kg og allskonar handfarangur. Ég þurfti að klæðast mjög mörgum fötum á leiðinni og svitnaði eins og svín í vélinni. Lífið er erfitt. En allt hófst á endanum og ég er komin heim. Bless bless London líf og halló Reykjavík!

Bráðum flyt ég svo inní nýja íbúð með Dísu Ólafs. Ég er mjög spennt og mitt fyrsta verk verður að búa til gardínur úr öllum silkislæðunum mínum. Verður áhugavert að sjá hvernig það mun koma út. Ég ætla líka að búa til jólatré.

Svo vantar mig líka vinnu.

sunnudagur, 29. ágúst 2010

Baila Baila Baila Baila Baila Baila Baila me

Hvernig geta gipsy kings verið svona mikil snilld? Þeir gera alla daga að góðum dögum. Ég þarf gipsy king í mitt líf. ASAP.


Annars er svo mikið af djammi á næstu vikum að ég veit ekki hvernig ég á að fara að. Hef þess vegna ákveðið að gera þessa viku að viku lifrarinnar. Greyið fer að gefast upp, ég skil í alvöru ekki hvernig þessir bretar fara að þessu.

föstudagur, 20. ágúst 2010

HÆ.

Ég þoli ekki þegar fólk labbar hægt fyrir framan mig. Getur það ekki skilið að ég er að flýta mér? Ég þarf sko að gera allskonar mikilvæga og spennandi hluti. Tilitsleysið algjört. Þetta gerir mig samt ekki jafn reiða og að fara í primark. Þanngað þarf ég að fara í ótrúlegu andlegu jafnvægi, annars er voðinn vís. Svo þarf ég líka að hlusta á róandi tónlist þegar ég er þar inni og helst hafa með mér vatn. Mjög mikilvægt að innbyrða vökva í svona ástandi. Ef ég væri skynsöm myndi ég sjáflsagt bara hætta að fara þanngað. Ég er bara svo meðvirk og það fara allir í primark.

Annars er ég núna komin með mjög stutt hár. Næstum eins og drengur. Kannski virkar það betur til að næla sér í karlmenn. Ég er öll í tilraunastarfsemi. Það er svo mikilvægt að prófa nýja hluti.

þriðjudagur, 27. apríl 2010

herra jón.

Kæru vinir,
blogg einu sinni í mánuði, það er þeminn. Ég er eins og Rósa frænka. Stundum nákvæmlega mánuður og stundum nokkrir dagar framyfir. Bara til að láta ykkur svitna smá og gera ykkur grein fyrir hversu kærkominn gestur ég í raun og veru er. Mögulega lita ég hárið á mér rautt á komandi dögum. Væri permanet ekki of langt gengið?

Gott að frétta. Ég er alltaf í vinnunni. Það er ágætt. Þegar ég klára að vinna fer ég svo í drykki með vinnufélögunum og svo þegar ég er í fríi stoppa ég við í vinnunni og fæ mér frítt kaffi og heilsa uppá vinnufélaganna. Ég er mjög takmörkuð í öllu svona.

Vinnufélagarnir eru ágætir. Sumir betri en aðrir og aðrir fyndnari en sumir. Eins og einn maður sem ég ætla að kalla Jón. Bara svona ef einhverjir af vinnufélögunum skyldu fara inná bloggið mitt, skella því í google translate og segja til mín. Maður tekur engar áhættur. Í London er sko mikið atvinnuleysi. Og ég vil ekki verða ein af betlurunum. Það kann enginn vel við þá, það er líka oft vond lykt af þeim. Og einn þeirra á ekki belti svo maður sér alltaf djásnið hans þegar hann biður um pening. Það er frekar óþægilegt. Aftur að Jóni. Nú hef ég ekki alveg á hreinu hvaða starfi Jón gegnir innan the Luxe. Og vinsamlegast athugið að ég hef unnið þar í tæpa 2 mánuði nú þegar. En starf hans virðist hinsvegar krefjast þess af honum að hann labbi hratt útum allt. Sem er auðvitað ágætt útaf fyrir sig, maður brennir fleiri kaloríum með því að labba rösklega. Jón labbar rosalega hratt alltaf útum allt og er svaka mjór. Hann er líka með stælt læri, maður sér það í gegnum níðþröngar gallabuxurnar. Þess má til gamans geta að þær eru einnig skreyttar með semalíusteinum. Nú drekkur Jón kamillu te í öll mál. Kannski er það grennandi líka, eða kannski finnst honum kaffið mitt bara vont. Ég er stór stelpa og get dílað við það. Allavega Jón labbar hratt, virðist vera upptekinn og drekkur mikið kamillute. Svo til að kóróna allt saman er Jón líka með litaðar augabrúnir. Sjálf set ég alltaf stórt spurningamerki við karlmenn með litaðar augabrúnir. Ásgeir Kolbeins einhver? En kannski eru þetta bara fordómar í mér. Um daginn kom ég líka að Jóni inná lager hlustandi á ipodinn sinn að hlusta á lagið I wanna know what love is með Mariah Carey (mér finnst áhrifameira ef þið horfið á vídjóið líka, sjálf er ég búin að horfa á það þrisvar. Grét tvisvar.)
Jón hrökk í kút þegar hann áttaði sig á að ég stóð fyrir aftan hann og við deildum vandræðalegri stund inná lager. Og ekki á góðan hátt. Jón er sko aldeilis engin Mariah Carey. Nóg um Jón, ég man ekki einu sinni afhverju ég byrjaði að blogga um hann. Ansans.

Tody hefur það enn gott. Við gefum honum alveg stundum að borða núna. Það er mun betra en aldrei. Honum er meira að segja farinn að vaxa fiskur um hrygg, þó að hann sé froskur. Ég er ekki frá því að ég sjái móta fyrir smá tussubumbu á honum. Eitthvað verður að gera í því. Bráðum ætla ég að setja inn vídjó af honum að borða.

Og já, öllum í vinnunni finnst voða fyndið að kalla mig the volcano. Mér finnst það ekki alveg eins fyndið. En samt alveg pínu.

þriðjudagur, 23. mars 2010

lóan er komin.

Kæru vinir,
ég er snúin aftur og er ekki dauð úr öllum æðum. Margir (frekar fáir) höfðu áhyggjur af afdrifum mínum og óttuðust jafnvel um líf mitt. Ég þakka hugulsemina, en það er ekkert að óttast. Óhult ég er.
Ég er hinsvegar búin að standa í ströngu við flutninga og atvinnuleit.
Núna er ég komin með vinnu, það gekk þó ekki áfallalaust fyrir sig því áður en ég eignaðist þessa vinnu þá eignaðist ég aðra vinnu. Sem var ekki góð og ekki skemmtileg. Það var pínu leiðinlegt. En núna er skemmtilegt.
Í dag lifi ég í íbúð með meðleigjendum mínum Steindóri Esju, Alex Wilson og Tody. Tody er froskur sem albínói. Tody hefur ekki fengið mat í rúmar tvær vikur, maður þarf að vera skinny í austur london. Það er mjög mikilvægt. Hann er samt sprækur sem lækur og spriklar eins og enginn sé morgundagurinn við ljúfa tóna örlagabarnsins. Uppáhalds lagið hans er bootylicious, hann missir alveg stjórn á sér um leið og það fer í gang.

Annars er einstaklega gott að frétta. Ég hef það mjög gott og London er góð snilld. Ég er að vinna á veitingastað sem heitir the Luxe og er á Spitalfields marked. Eigandi staðarins er frægur maður, svona eins og Geir Ólafs. Hann er celebrity chef. Eins og Gordon Ramsay. Hann er samt hvorki Geir Ólafs né Gordon Ramsay, hann er þarna mitt á milli. Hann er John Torode og enginn á Íslandi veit hver hann er. Hér er hann samt frægur, ég lofa. Það er mjög stressístressandi að gera kaffi handa honum, hann er með rosalega viðkvæma palettu sjáið þið til.

Á laugardaginn var innflutningspartý. Þar tókst okkur að reita nágranna okkar til reiði, vel gert við. Það kunna ekki allir vel að meta Hall og Oats. Mér og meðleigjendum til mikillar undrunnar. Ég ætla ekki að segja meira.


Tody lookalike, hann er mjög sjarmerandi. Ég lofa.

laugardagur, 27. febrúar 2010

heit flaga.

Kæru vinir,
í þessum töluðu orðum er stórvinur minn og tilvonandi meðleigjandi, Stehn, á tónleikum með bandinu Hot Chip. Stehn er þó ekki maður einsamall á tónleikunum því hinn tilvonandi meðleigjandi minn og einnig tilvonandi stórvinur, Vitamin A, hristir einnig á sér rassinn í kvöld. Það var þó (tilvonandi) tilviljun, nema þeir séu að reyna að vera lúmskílúmsk og skilja mig útundan. Á meðan þeir skemmta sér konunglega hef ég farið nokkrar ferðir á chatroulette (ég er enn að leita að sófa sjarmörnum), horft á Greys Anatomy og gert allskonar annað ómerkilegt. Þetta er í alvöru ekki frásögu færandi.

6 mars munum við þríeykið svo halda innreið okkar á framtíðarheimilið, þar bíður okkar kristalsljósakróna og líka mjög ljótar flísar. Svo eru líka 6 risastórir borðstofustólar, en ekkert borðstofuborð. Ég stefni á að nota línuna "fáðu þér sæti, sæti." Mjög oft, og er ekki við öðru að búast en að það falli í góðann jarðveg. Annars er íbúðin snilld.

Ég dag fór ég í atvinnuprufu á einu kaffihúsi. Það er smá frásögu færandi. Aðalega fyrir þær sakir að upp að mér vatt sér fastakúnni sem spurði mig að nafni. Sagði ég eins og venjulega að ég væri kölluð Lóa (það er svo mikilvægt að vera með svona alter-ego í útlöndum, djók.) Hann ákvað þá að bregða fyrir sig betri fætinum og smellti fram brandaranum "So, I guess you´re pretty down all the time? hehe." Ég skildi ekkert hvað á mig stóð veðrið. Eftir smá stund kom svo í ljós að hann hélt ég héti Low. Sem ég heiti því miður ekki.


Hundarnir eru færslunni algjörlega óviðkomandi. Ég vil bara svo mikið eignast svona. Þeir eru svo fallega ljótir. Svo hef ég líka verið með frekar mikið blæti fyrir postulíns dýrum undanfarið, það er ekkert til að skammast sín fyrir.

þriðjudagur, 23. febrúar 2010

chatroulette.

kæru vinir,
í gær sá ég mann standa á haus í sófa og rúnka sér á meðan. Ég vil giftast þessum manni. Getur einhver sagt mér hvar ég finn hann aftur?

kveðja,
ein örvæntingarfull í leit að ást.

fimmtudagur, 11. febrúar 2010

hinn gullni meðalvegur.

kæru vinir,
seinustu dagar hafa verið einstaklega viðburðarríkir. Hér í london er sko margt um manninn, nánar tiltekið 7,556,900 manns. Hér eru samt líka konur, kynjahlutföll eru frekar jöfn verð ég að segja. Eins og er leita ég logandi ljósi að atvinnu, hún má helst vera skemmtileg. Maður má samt ekki gera of miklar kröfur. Það er líka mikilvægt. Hinn gullni meðalvegur er mjög mikilvægur í þessu öllu saman (lífið er partur af þessu öllu saman). Ég er samt ekkert að vera dramatísk, ég er smá að grínast. En samt ekki, þið verðið eiginlega að lesa á milli línanna.

Annars er ég hressíhress fyrir utan það að hér virðist ég þurfa að sofa meira en annarstaðar. Ég er reyndar ekki þekkt fyrir að vera árrisul en öllu má nú ofgera og fer jafnvel að koma að því að ég þurfi að leita mér hjálpar. Ég ætla samt ekkert að fara að taka eiturlyf mamma, engar áhyggjur. Þau eru sko ekki lausn við neinu, það kenndi Magnús úr egó mér þegar hann var með forvarnarfræðslu fyrir mig grunnskóla. Ég fæ enn martraðir útaf vídjóinu sem hann sýndi í tíma af einhverjum að sprauta ólyfjan í hnúanna. Bless, bless barnæska. Nei djók, ég var örugglega orðin kynþroska á þessum tíma.

Ég elska tube-ið en sem komið er, þar er fyndið fólk. Um daginn sá Eygló (já Eygló var líka í heimsókn í london, það var gaman) stelpu æla í hendina á sér. Ég varð því miður ekki þeirrar gæfu aðnjótandi að sjá það. Var farin út, mér til mikilla vonbrigða. En við vorum búnar að vera að fylgjast með henni í smá tíma og ég hélt bara að hún væri þreytt. En svo tekur hún uppá þessu. Þetta kennir manni bara það að maður veit aldrei hverju maður á að búast við af fólki. Algjörlega óútreiknanlegt, að gubba svona í hendina á sér. Það er jafn ósmart og það er fyndið.

Fleira er ekki í fréttum.


miðvikudagur, 3. febrúar 2010

vinabón.

vill einhver sem á nokkra peninga (brynhildur þessu er beint til þín) vera svo vænn að gefa mér svona tolix stól. Aðalega af því ég er góð stelpa og líka afþví mér finnast þeir svo fínir og flottir. Ég lofa að sitja oft á honum. Mig langar samt eiginlega í sex, en það er allt í lagi að byrja á einum...

og já ég er komin til london og það er snilld.

laugardagur, 23. janúar 2010

oj.

Kæru vinir,
á morgun er seinasta vaktin mín á kaffihúsinu. Vaktin markar endann á farsælum starfsferli mínum sem Loz the barista og bindur einnig hnút á endann á spottanum sem dvöl mín í Bournemouth er. Sem sagt, stórkostlegt vakt. Báðir þessir endar kalla á upplyftingu, fögnuð og gleði sem er einmitt ástæða þess að á morgun mun ég með vinum mínum halda á international night (svo mikilvægt að vera soldið international, he he) á V club. Eldgömul kirkja í hjarta Bournemouth sem fengið hefur uppreisn æru og verið gerð að diskó klúbb. Hér fer ég bara á klúbbinn, aldrei bar. En stundum pöbbinn.

Þrátt fyrir að seinasti starfsdagur minn sé á morgun þá er strax búið að ráða manneskju í minn stað, og þau voru ekki lengi að því. Costa virðist bera litla sem enga virðingu fyrir tilfinningum starfskrafta sinna. Tók ég þó meðvitaða ákvörðun um að vera stærri manneskjan og rísa fyrir ofan þessa hegðun og hef af þeim sökum tekið virkan þátt í starfsþjálfun eftirmanns míns. Til að gera langa sögu stutta þá er maðurinn stórfurðulegur og minnir einna helst á persónu Will Ferrel úr stórvirkinu Elf. Bæði í útliti og háttum. Vinsamlegast athugið að ég er á engan hátt lituð af aðstæðum.

Annars get ég með engu móti skilið þá venju fólks að snýta sér hressilega á almannafæri og þá sérstaklega ekki þegar þú ert vel kvefaður. Þetta er mjög ógeðslegt og það er í alvöru ekkert mál að afsaka sig og skreppa afsíðis (hef sjálf gert nákvæma athugun á þessu og það tók ekki nema 35 sek, true story). Snýtararnir falla sjálfkrafa í flokk með partýpari og decaf skinny vanilla latte týpum.

Myndin er sviðsett.

þriðjudagur, 5. janúar 2010

Spenntíspennt.

Nákvæmlega núna er ég við það að pissa í buxurnar. Og ástæðan er ekki ofreynsla á þvagblöðru vegna tedrykkju. Heldur fylgir gífurlegur spenningur tilvonandi heimsóknar stórvinkonu minnar Ásdísar Ólafsdóttur, spenningur sem virðist hafa bein áhrif á þvagblöðruna.

Mikið er ég spenntíspennt. Veðurguðirnir eru líka mjög spenntir yfir komu Dízu og hafa ákveðið að gera sitt allra besta til að bjóða hana velkomna og splæsa því í snjókomu á morgun. Þeir virðast hinsvegar hafa gleymt að taka það með í reikningin að snjókomu í þessu landi fylgja gífurlegar seinkanir á öllum samkomum. Sem er ekki gott, sérstaklega ekki þar sem við munum nýta okkur samgöngur á morgun. Mér hefur ekki enn tekist að læra tilflutning.
Skrýtin tilviljun að nákvæmlega sama gerðist þegar ma,pa&lil sis komu. 5 klukkutíma seinkun er ekki eitthvað sem ég er áfjáð í. Ég ætti kannski að fara að taka þessu eitthvað persónulega?

laugardagur, 2. janúar 2010

Stál og hnífur.

Kæru vinir,
eins og hefur sjálfsagt ekki farið framhjá neinu ykkar eru jólin nýafstaðin og svo er líka komið nýtt ár. Ótrúlegt. Sjálf eyddi ég hátíð ljóss og friðar í GB og var það áhugarverð reynsla. Segjast verður eins og er að bretar komast ekki með tærnar þar sem við íslendingar höfum hælanna í að halda jól. Og eins og þið getið rétt ímyndað ykkur var ég ekkert feimin við að tilkynna þeim það. Er soldið að vinna með þessa óþolandi týpu í GB.

Annars gæti svo sem vel verið að karma hafi bitið í rassinn á mér í dag þar sem mér tókst á einhvern ótrúlegan hátt að detta upp stiga í vinnuni með lúkurnar fullar af diskum og bollum. Skar mig að sjálfsögðu og svo var þetta mér til ennþá meiri ánægju fyrir framan svona sirka 15 manns. Vinsamlegast athugið að ekki ein hræða stóð upp til að veita mér fyrstu hjálp þar sem ég lá nánast örkrumla á plastparketinu. Ein kona stóð að vísu upp og gekk í áttina að mér og hélt ég í nokkur dásamleg augnablik að hún ætlaði að aðstoða mig en þá var hún eingöngu að þurrka mjólk af kápunni sinni. Flottust. Núna er ég samt með risa umbúðir á hendinni, segji öllum sem spyrja mig að pólska stelpan sem ég vinn með hafi stungið mig. Það rengir enginn frásögn mína.

Djók, hún er besta skinn. Og myndi aldrei stinga mig.