Kæru vinir,
í þessum töluðu orðum er stórvinur minn og tilvonandi meðleigjandi, Stehn, á tónleikum með bandinu Hot Chip. Stehn er þó ekki maður einsamall á tónleikunum því hinn tilvonandi meðleigjandi minn og einnig tilvonandi stórvinur, Vitamin A, hristir einnig á sér rassinn í kvöld. Það var þó (tilvonandi) tilviljun, nema þeir séu að reyna að vera lúmskílúmsk og skilja mig útundan. Á meðan þeir skemmta sér konunglega hef ég farið nokkrar ferðir á chatroulette (ég er enn að leita að sófa sjarmörnum), horft á Greys Anatomy og gert allskonar annað ómerkilegt. Þetta er í alvöru ekki frásögu færandi.
6 mars munum við þríeykið svo halda innreið okkar á framtíðarheimilið, þar bíður okkar kristalsljósakróna og líka mjög ljótar flísar. Svo eru líka 6 risastórir borðstofustólar, en ekkert borðstofuborð. Ég stefni á að nota línuna "fáðu þér sæti, sæti." Mjög oft, og er ekki við öðru að búast en að það falli í góðann jarðveg. Annars er íbúðin snilld.
Ég dag fór ég í atvinnuprufu á einu kaffihúsi. Það er smá frásögu færandi. Aðalega fyrir þær sakir að upp að mér vatt sér fastakúnni sem spurði mig að nafni. Sagði ég eins og venjulega að ég væri kölluð Lóa (það er svo mikilvægt að vera með svona alter-ego í útlöndum, djók.) Hann ákvað þá að bregða fyrir sig betri fætinum og smellti fram brandaranum "So, I guess you´re pretty down all the time? hehe." Ég skildi ekkert hvað á mig stóð veðrið. Eftir smá stund kom svo í ljós að hann hélt ég héti Low. Sem ég heiti því miður ekki.

Hundarnir eru færslunni algjörlega óviðkomandi. Ég vil bara svo mikið eignast svona. Þeir eru svo fallega ljótir. Svo hef ég líka verið með frekar mikið blæti fyrir postulíns dýrum undanfarið, það er ekkert til að skammast sín fyrir.